Stærsta heppnisrannsókn Íslandssögunnar

Happdrætti Háskóla Íslands í samstarfi við Félagsvísindastofnun réðst í lok árs 2017 í stærstu heppnisrannsókn sem gerð hefur verið á Íslandi. Heppni og hjátrú hafa leikið stórt hlutverk í lífi íslensku þjóðarinnar og því ekki úr vegi að kortleggja þessar systur með ítarlegum hætti. Óhætt er að segja að niðurstöðurnar hafi verið afar áhugaverðar. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að meirihluti Íslendinga telur sig heppinn og almennt finnst Íslendingum þeir vera heppnir og hamingjusamir.

Konur telja sig heppnari en karlar og sígandi lukka virðist best því þeir sem eldri eru telja sig heppnari en yngra fólk. Íbúar á landsbyggðinni eru heppnari en Suðurnesjamenn og höfuðborgarbúar. Sunnlendingar eru manna heppnastir.

Heppni hefur ekki verið kortlögð með þessum hætti áður og það var einnig spurt um hjátrú. Íslendingar reyndust alls ekki eins hjátrúarfullir og víða hefur verið haldið fram.

Hér getur þú skoðað rannsóknina í heild sinni.